sunnudagur, ágúst 26, 2012
Misskilið múslí
Átti von á góðum gestum og ákvað að nota ferðina og nýta fyrningar af gamalli sólberjasultu. Þá bakar maður hjónabandssælu. Fann ekki uppskriftina hennar mömmu og tók séns á að nota handskrifaða uppskrift frá konu sem ég þekkti einu sinni. Hún skildi skömmu eftir að ég fékk uppskriftina í hendur, og einhvern veginn langaði mig aldrei að láta reyna á hjónabandssæluna hennar. Ekki fyrr en í gær, í huguðu letikasti.
Ég skellti innihaldsefnum kökunnar í gömlu hrærivélina mína, en þau vildu ekki loða saman, þau vildu skilja. Gat skeð. Þegar hjónabandssælan kom síðan úr ofninum var hún eins og malarkambur með einu mjúku jarðlagi. Hún náði næstum að vera þolanlegt bakkelsi ef maður jós á hana haug af vanilluís. Gestirnir voru kurteisir.
Í morgun skildi ég óhamingju og innra eðli kökunnar þegar ég borðaði hana út á súrmjólk. Það verður hver að fá að njóta sín eins og hann er gjörður. Þessi hjónabandssæla var múslí. Fyrirtaks múslí.
laugardagur, mars 24, 2012
Rokbaul



"Góða veðrið" endurskilgreindi fyrir mér orðið rokrassgat og nú trúi ég sögunni sem Hjálmar sagði mér af gangnamanninum við Botnsá sem þurfti að skíta sama kúknum þrisvar sinnum.
Upp komumst við af því að við erum þrjósk. Og biluð. Þetta rok var bara kjánalegt.
Spurning hvort maður eigi að grýta eggjum í Veðurstofuna? Nei, djók.
þriðjudagur, febrúar 28, 2012
Febrúarblóm

Ætla samt að greina frá því að líf mitt breyttist í síðasta mánuði. Hann pabbi minn dó, eftir harkaleg veikindi. Það var allt saman miklu erfiðari lífsreynsla en mig óraði fyrir, enda veit enginn hvað það er að missa nákominn, nema sá sem reynt hefur á eigin skinni. Rétt eins og þeir sem aldrei hafa eignast barn þekkja ekki tilfinningarnar sem fylgja þeim stóra harða og mjúka pakka. Keppir fátt við líf og dauða.
Blómin á myndinni eru tengdamamma (sem ég fékk hjá Maríu), nílarsef (græðling gaf mér Hildigunnur) og lárperujurt sem ég kom sjálf til úr steini. Mér þykir vænt um blóm og er einmitt að fara að sá fyrir einhverju skemmtilegu sem ég get dedúað við.
Síðan er það títt að samkvæmt almanaki kemur bráðum vor.
*Bara smá grín, nema þú sért með skítlegt eðli, þá er þetta ekki grín heldur þung ádrepa, og boð á steintöflu netsins um að snúa lífi þínu til betri vegar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)